
Starfssvæði
Starfssvæði Heklunnar tekur til fjögurra sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þau eru: Suðurnesjabær, Grindavík, Reykjanesbær og Vogar.
Íbúar á Suðurnesjum eru um 29 þúsund talsins en svæðið nær frá Vatnsleysuströnd, að Garðskaga og alla leið til Krísuvíkur.
Íbúafjöldi á Suðurnesjum hefur vaxið svo til á hverju ári frá árinu 1930. Á tímabilinu 1999-2009 fjölgaði Suðurnesjamönnum um 33%, á meðan landsmönnum öllum fjölgaði um 14%. Vöxtur svæðisins hefur að mestu orðið til í fjölmennasta sveitarfélagi svæðisins, Reykjanesbæ. Þó fjölgaði hlutfallslega mikið í öllum sveitarfélögum á
þessum tíma samanborið við landsmeðaltal.
Talið er líklegt að íbúar á Suðurnesjum verði tæplega 35.000 árið 2030.
Suðurnes eru eitt atvinnusvæði og vinnur fjöldi manns úr öllum byggðarlögunum á Keflavíkurflugvelli eða í þjónustu við millilandaflug en hann er stærsti atvinnuveitandinn á svæðinu. Þar fyrir utan eru fjölmennustu atvinnugreinarnar útgerð, menntun og þjónusta og samgöngur. Á svæðinu er háskóli, fjölbrautaskóli, fisktækniskóli, símenntunarmiðstöð og þekkingarsetur með starfsstöðum til rannsókna og nýsköpunar.