Starfssvæði - Heklan
#

Starfssvæði

Starfssvæði Heklunnar tekur til fjögurra sveitarfélaga á Suðurnesjum.  Þau eru: Suðurnesjabær, Grindavík, Reykjanesbær og Vogar.

Íbúar á Suðurnesjum eru um 29 þúsund talsins en svæðið nær frá Vatnsleysuströnd, að Garðskaga og alla leið til Krísuvíkur.

Íbúafjöldi á Suðurnesjum hefur vaxið svo til á hverju ári frá árinu 1930.  Á tímabilinu 1999-2009 fjölgaði Suðurnesjamönnum um 33%, á meðan landsmönnum öllum fjölgaði um 14%. Vöxtur svæðisins hefur að mestu orðið til í fjölmennasta sveitarfélagi svæðisins, Reykjanesbæ. Þó fjölgaði hlutfallslega mikið í öllum sveitarfélögum á
þessum tíma samanborið við landsmeðaltal.

Talið er líklegt að íbúar á Suðurnesjum verði tæplega 35.000 árið 2030.

Suðurnes eru eitt atvinnusvæði og vinnur fjöldi manns úr öllum byggðarlögunum á Keflavíkurflugvelli eða í þjónustu við millilandaflug en hann er stærsti atvinnuveitandinn á svæðinu. Þar fyrir utan eru fjölmennustu atvinnugreinarnar útgerð, menntun og þjónusta og samgöngur. Á svæðinu er háskóli, fjölbrautaskóli, fisktækniskóli, símenntunarmiðstöð og þekkingarsetur með starfsstöðum til rannsókna og nýsköpunar.

 • Reykjanesbær

  Reykjanesbær varð til við sameiningu sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur  og Hafna 11. júní 1994.  Sveitarfélagið er staðsett á utanverðum Reykjanesskaganum, nær frá norðurmörkum Keflavíkur og út á Reykjanestá. Svæðið  um 144600 hektarar. Reykjanesbær er fimmta stærsta sveitarfélag landsins með rúmlega 15.000 íbúa. Íbúafjölgun hefur verið hröð á undanförnum árum og vel yfir landsmeðaltali.

  reykjanesbaer.is

 • Grindavík

  Grindavík er rúmlega 3100 manna bær sem hefur vaxið hratt í seinni tíð. Grindavík er vinsælasti ferðamannastaður landsins enda Bláa Lónið í anddyri bæjarins. Grindavík er fjölskylduvænn bær og einn öflugasti útgerðarbær landsins með kraftmiklum og vel reknum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum.

  grindavik.is

 • Suðurnesjabær

  Garðurinn dregur nafn sitt af Skagagarðinum sem lá frá túngarðinum á Útskálum að Kirkjubóli í Sandgerði. Talið er að bændur hafi hlaðið garðinn til þess að verja akra sína fyrir ágangi sauðfjár en kornyrkja var algeng á Reykjanesi á landnámsöld.

  Mikil uppbygging á sér stað í Garði en íbúafjöldi er um 1500 manns.

  svgardur.is

  Sandgerðisbær, áður Miðneshreppur, er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga.
  Bæjarmerki Sandgerðisbæjar vísar til hins forna heitis Rosmhvalaneshrepps og því er rostungurinn í bæjarmerkinu.

  Íbúar í Sandgerði eru tæplega 1600. Sjávarútvegur og fiskvinnsla eru helstu atvinnuvegir en allgóð höfn er í Sandgerði.

  Flugstöð Leifs Eiríkssonar er innan bæjarmarka Sandgerðis.

  sandgerdi.is

 • Vogar

  Sveitarfélagið Vogar er næst landstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær yfir Vatnsleysuströnd og bæinn Voga. Í sveitarfélaginu búa rúmlega 1200 manns.

  Sveitarfélagið Vogar er mjög vel staðsett. Í nágrenni við þjónustu og vinnumarkað höfuðborgarsvæðisins, en býður upp á rólegt og vinalegt umhverfi þar sem stutt er í náttúruna.

  vogar.is