
Verkefni
-
Við höfum góða sögu að segja
Ímynd Reykjaness hefur of lengi verið neikvæð. Þaðan hafa t.a.m. reglulega borist fréttir um mikið atvinnuleysi og sú skoðun að þar sé ekki fallegt er of útbreidd. Samkvæmt rannsóknum er mælanlegur munur á viðhorfi til svæðisins borið saman við aðra landshluta. Hið athyglisverða er þó að á bak við það viðhorf leynist oftar en ekki fordómar eða einfaldlega rangar upplýsingar.
Markaðsátakið Reykjanes – við höfum góða sögu að segja,hefur það markmið að leiðrétta þennan ímyndarhalla. Reykjanesið er auðugt af stórmerkum jarðfræðilegum náttúrufyrirbærum, þar er víða ægifagurt og atvinnuleysi er nánast hverfandi. Vöxtur fyrirtækja hefur verið ógnarhraður og þangað vantar fólk til starfa. Markmið herferðarinnar er að sýna fram á kosti Reykjaness sem atvinnu- og búsetusvæðis og um leið stappa stálinu í núverandi íbúa og auka stolt þeirra og ánægja af sinni heimabyggð.
Auglýsingar herferðarinnar byggja að miklu leiti á vitnisburði íbúa Reykjaness. Í gegnum þeirra líf fáum við innsýn í kraftmikið og spennandi samfélag þar sem er gott og búa og starfa.
Verkefnið er unnið í samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum og fyrirtækja og er markaðsherferðin unnin af HN samskiptum. Verkefnastjóri er Dagný Gísladóttir.
Hefur þú góða sögu að segja? Hafðu þá samband á frettir@visitreykjanes.is
-
Reykjanes Unesco Global Geopark
Reykjanesskaginn er í dag geopark og hluti af verndaráætlun Unesco eða Unesco Global Geopark.
Reykjanes Geopark fékk formlega vottun sem geopark á þrettándu haustráðstefnu European Geoparks Network í Rokua Geopark í Finnlandi í september 2015. Reykjanes Geopark er annað svæðið á Íslandi til að hljóta þessa vottun er Katla Geopark hlaut hana árið 2011. Reykjanes Geopark er jafnframt 66. svæðið í Evrópu sem hlítur þessa vottun. Í lok árs 2015 var alþjóðlega prógramm geoparka samþykkt sem 3ðja áætlun Unesco og er því Reykjanes Geopark hluti af því.
Enska orðið geopark eða geo er komið af orðinu Gaia, sem er ein af grísku guðunum og þýðir móðir jörð.
Hvað er merkilegt við Reykjanes?
Mið-Atlantshafhryggurinn gengur á land yst á Reykjanesskaganum og liggur gegnum landið frá suðvestri til norðausturs. Jarðsaga Reykjanesskagans er nokkuð vel þekkt og má rekja hana nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann. Flest jarðlög á svæðinu eru yngri en 100 þúsund ára. Á þessum tíma hefur loftslag verið breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu og er þá talað um jökulskeið, en á milli var hlýrra loftslag líkt og nú, og er þá talað um hlýskeið. Á jökulskeiðunum áttu sér stað gos undir jökli. Þegar jökullinn hopaði stóðu eftir móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun frá gosstöðvum undan halla, oft til sjávar. Reykjanes er á flekaskilum, þ.e. hluti Reykjanesskagans tilheyrir Evrasíuflekanum á meðan hinn hlutinn tilheyrir Norður Ameríkuflekanum.
Talið er að um tólf hraun hafi runnið á Reykjanesi frá því að land byggðist á 9. öld eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraun sem rennur á Reykjanesi er aðallega sprungugos, þ.e. mikið magn hrauns kemur upp úr gígum á sprungum en lítið af ösku.
Af hverju Geopark?
Hvergi í heiminum má sjá flekaskilin ganga á land með jafn áþreyfanlegum hætti og á Reykjanesi. Í Reykjanes jarðvangi er að finna margar merkilegar jarðminjar og eru sumar þeirra einstakar á heimsvísu. Þar er að finna allar tegundir elstöðva sem gosið hafa á Íslandi, m.a. fjögur gosbelti og samanstendur hvert þeirra af hundruðum opinna sprungna, gígaraðir, dyngjur og skjaldlaga bungur.
Reykjanesskaginn er nú vottaður sem Global UNESCO GeoparkEuropean Geoparks Network logo
Reykjanes Geopark hefur listað upp 55 staði sem tengjast flekaskilunum og sögu Reykjanesskagans og eru merktir sérstaklega sem „geosites“ eða áhugaverðir staðir innan Reykjanes Geopark.
Verkefnastjóri er Eggert Sólberg Jónsson.
-
Destination Management Plans-DMP
DMP er heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.
DMP er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðila ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu.
Nú er unnið að kortlagningu í öllum landshlutum, þar á meðal á Reyjanesi þar sem skilgreindir eru hagsmunaaðilar og lykilþátttakendur ásamt fræðslu og innleiðingu.
Verkefninu er stýrt af ferðamálastofu og stjórnstöð ferðamála.
-
Fræðandi ferðaþjónusta FAM
FAM-ferðir og kynningar í samvinnu við Reykjanes jarðvang, Keili, Þekkingarsetrið í Sandgerði og aðra aðila sem vinna að fræðandi ferðaþjónustu á Reykjanesi með það að markmiði að efla svæðið yfir vetrartímann.
-
Ferðasýningar og vinnustofur
Mikilvægt er fyrir svæðið að vera sýnilegt og taka reglulega þátt í sýningum eða vinnustofum sem skipulagðar eru víða um heim.
Sýningarnar og vinnustofurnar sem Markaðsstofa Reykjaness tekur þátt í miðast við til hvaða markhópa svæðið vill ná hverju sinn og hver stefna svæðisins er.
- Mannamót
- Mid-Atlantic Reykjavík
- VestNorden Íslandi