Fjármögnun

Fjármagn þarf til að hugmynd geti orðið að raunverulegum rekstri. Því betur sem þú hefur skilgreint hugmyndina og getur rökstutt viðskiptagrundvöll hennar, því meiri líkur eru á að þú getir fjármagnað verkefnið með því að fá fjárfesta inn eða tryggt þér aðra fjámögnun.

Ýmsar leiðir eru til að fjármagna rekstur eða viðskiptahugmynd. Algengustu leiðirnar eru bankalán, fjárfestar,  hópfjármögnun og fjölskyldulán.

Fjármögnun almennt


Þegar fyrirtækið er á hugmyndastigi má gera ráð fyrir að frumkvöðull þurfi að verja umtalsverðum tíma í að vinna að hugmyndinni. Frumkvöðullinn þarf að líta á þennan tíma sem fjárfestingu í fyrirtækinu. Ef þú ert ekki tilbúin/nn til að taka áhættu með eigið fé og tíma, hvers vegna ættu þá aðrir að veðja á þína hugmynd með sínu fjármagni?

Bankalán


Það er nánast ógjörningur að standa í rekstri án þess að vera í góðum samskiptum við eigin viðskiptabanka. Þó þú sækist ekki eftir láni í bankanum, þá veita bankar ýmsa þjónustu til rekstraraðila sem geta komið að góðum notum.

Gott er að fara í bankann og ræða um áætlanir þínar. Þeir munu eflaust gefa þér góð ráð og greina þér frá því hvað er í boði.

Framboð banka á lánum til frumkvöðla kann að vera misjafnt á hverjum tíma. Því borgar sig að skoða hvað er í boði í fleiri en einum banka til að vera viss um að velja besta kostinn.

Það er tvímælalaust betra fyrir þig að vera með viðskiptaáætlun í höndunum. Þá veit bankinn að þér er alvara með hugmyndir þínar og það eykur möguleika þína á láni. Gott getur verið að ræða við starfsmenn bankans tímanlega til að finna út hvað þeir vilja sjá í viðskiptaáætluninni.

Ekki þurfa allir stór lán til að hefja rekstur. Hafðu í huga að áhættan við að fara út í rekstur er minni eftir því sem minna er tekið af lánum. Það getur þó verið að rekstur þurfi verulegt fjármagn til að fara af stað en það þýðir jafnframt að fallið er hærra ef illa fer. Oft er farið út í fyrirtækjarekstur með lítil sem engin bankalán þar sem fjárþörf er ekki mikil í byrjun. Ef þú átt í erfiðleikum með að fá lán þá getur þú farið yfir stofnkostnaðinn og skoðað hvort ekki er mögulegt að lækka hann.

Æskilegt er að þú finnir út snemma hvort þú þarft á bankafjármögnun að halda til að koma rekstri þínum af stað. Þarftu verksmiðju eða skrifstofu? Þarftu að ráða til þín starfsmenn? Tekur tíma að finna viðskiptavini? Ef þú kemst ekki hjá þessum þáttum er fyrirsjáanlegt að þú þurfir að fá peninga að láni og þá hjálpar að hafa góða viðskiptaáætlun.

Fjárfestar


Fjárfestar vilja gjarnan sjá áætlanir um það hvernig þeirri fjárfestingu verður varið, áður en þeir fjárfesta í arðsemidrifnum fyrirtækjum. Í hvað verður fjármunum varið, hvernig aðgerðir munu stuðla að vexti fyrirtækisins, hver er áætluð arðsemi af fjárfestingunni og hver er útgönguleið fjárfesta.

Áður en þú og hugsanlegir fjárfestar taka fjárhagslega áhættu, er mikilvægt að þú getir sýnt fram á áætlanir þínar og að þær séu vel ígrundaðar, auk þess að þú getir brugðist við þeim vanda sem kann að koma upp. Vel unnin viðskiptaáætlun svarar flestum þessum spurningum og skapar traust fjárfesta í þinn garð. Einnig þurfa að fylgja áætlanir um hver hlutur fjárfesta verður í fyrirtækinu fyrir tiltekna fjárfestingu.

Er rekstaráætlunin klár?

Hópfjármögnun


Hópfjármögnun verður sífellt algengari aðferð til fjármögnunar sprotafyrirtækja og víða um heim eru margir hópfjármögnunaraðilar. Þeir þekktustu eru líklega Kickstarter, GoFundMe og Indiegogo. Íslenska fjármögnunarsíðan Karolinafund hefur einnig notið gríðarlegra vinsælda hér á landi og er í samstarfi við aðrar norrænar fjármögnunarsíður.

Hópfjármögnun virkar þannig að verkefnið er sett upp á vefinn og ákveðið fjármögnunar- og tímamarkmið sett. Fyrir ákveðið fjármagn getur neytandi til dæmis keypt vöru áður en hún hefur verið framleidd, fengið einhverja ákveðna gjöf í staðinn eða jafnvel fengið hlut í fyrirtækinu, allt eftir því hvernig verkefnið er sett upp.

Þessi fjármögnunarleið hefur reynst vel fyrir verkefni sem af einhverjum ástæðum þykja ekki sérstaklega fjárfestingarvæn, en eru engu að síður með sniðugar lausnir eða vörur sem neytendur vilja sjá á markaði. Hópfjármögnun getur gegnt hlutverki „proof of concept“ fyrir frekari fjárfestingar. Ef frumkvöðull getur sýnt fram á að ákveðinn fjöldi er tilbúinn að kaupa vöruna gefur það ákveðna vísbendingu um framtíðarmöguleika hennar.

Hópfjármögnun getur vissulega verið góð leið í markaðssetningu, en eingöngu miðað að markhópi vörunar. Verkefnið verður að vera undirbúið með það að markmiði að ná til þess markhóps sem varan er miðuð að, en ekki til þess að ná í nýjan. Það þarf að skilja markhópinn vel, búa til áhugaverð tilboð / viðskiptatækifæri fyrir hann og sýna fram á að verkefnið sé spennandi.

Góður undirbúningur felur til dæmis í sér að finna réttu hópfjármögnunarsíðuna en það eru mismunandi áherslur milli þeirra. Ákveða þarf hvað er í boði fyrir þann sem styrkir verkefnið og hvernig er hægt að fá sem mest út úr veittum stuðningi. Reynst hefur vel að undirbúa gott myndband og nýta aðra miðla til að koma hópfjármögnunarverkefninu á framfæri til markhópsins.

Hentar hópfjármögnun þínu verkefni?

Deila