Viðskipta- og rekstraráætlanir

Til þess að átta sig á því hvort viðskiptahugmynd sé álitleg er tilvalið að gera um hana viðskiptaáætlun. Innihald viðskiptaáætlana er mismunandi meðan efnistökin eru yfirleitt þau sömu.

Góð viðskiptaáætlun inniheldur vel uppsetta samantekt, lýsingu á viðskiptahugmyndinni, upplýsingar um vöruna, stjórnun og skipulag, markaðinn og samkeppnina, markaðsstefnu og áætlun og hvernig fjármálum verði háttað.

Fyrstu drög


Lykilinn að því að koma fyrirtæki á fót er áætlanagerð og fyrsta og mikilvægasta skrefið í henni er að gera góða viðskiptaáætlun fyrir fyrirtækið sem þú hyggst stofna. Í viðskiptaáætlun lýsir þú helstu þáttum hugmyndarinnar og setur fram skýr markmið um starfssemina. Einnig er viðskiptaáætlunin mikilvæg því hún neyðir þig til að reikna dæmið til enda og getur því forðað þér frá að gera afdrifarík mistök sem geta gerst ef lagt er upp með illa ígrundaða viðskiptahugmynd.

Viðskiptaáætlunin er þitt helsta tæki til að leggja grunn að framtíð fyrirtækisins og til að útvega peninga til rekstursins.

Áður en þú og hugsanlegir fjárfestar taka fjárhagslega áhættu, er mikilvægt að allir aðilar séu vissir um að þú vitir hvað þú ert að gera, áætlanir þínar séu vel ígrundaðar og að þú getir brugðist við þeim vanda sem kann að koma upp. Vel unnin viðskiptaáætlun svarar flestum þessum spurningum og skapar traust fjárfesta í þinn garð.

Stofnkostnaðar­áætlun


Mikilvægt er að stilla upp stofnkostnaðaráætlun áður en farið er af stað í fyrirtækjarekstur.  Nauðsynlegt er að átta sig á því hvað það kostar að hrinda hugmynd í framkvæmd og  hvernig brúa skal bilið þar til reksturinn fer að skila tekjum.  Stofnkostnaðaráætlun snýst um að lista upp þann kostnað sem fellur á fyrstu stigum og fer sá kostnaður eftir því hver viðskiptahugmyndin er.

Algengir kostnaðarliðir eru hér eftirfarandi en athugið að listinn er ekki tæmandi:

  • Undirbúningskostnaður – gerð viðskiptaáætlana, prófanir, öflun markaðsupplýsinga, leit að fjárfestum og/eða samstarfsaðilum.
  • Þróunarkostnaður – sá kostnaður sem felst í því að koma vöru eða þjónustu í söluhæft form.
  • Tæki og búnaður – hér er um að ræða hvers kyns tæki og búnaður sem nauðsynlegt er að fjárfesta í þannig að starfssemi geti hafist.
  • Húsnæði og innréttingar – huga þarf að standsetningu húsnæðis, vinnu iðnaðarmanna, innréttingar, merkingar og leiga húsnæðis.
  • Markaðskostnaður – hér er átt við þá þætti markaðsáætlunar sem snúa að gerð vörumerkis, umbúða, bæklinga, nafnspjalda og öðru kynningarefni sem þarf til áður en farið er af stað.
  • Skráningar – og leyfisgjöld – ýmis kostnaður fylgir skráningu fyrirtækja og öflun leyfa (fer eftir starfssemi).
  • Ýmis sérfræðikostnaður – til dæmis má hér nefna lögfræðinga, endurskoðendur og  tölvuþjónustu.

Fjárhagsáætlun og reiknilíkön


Reiknaðu dæmið

Framkvæmdin og verkfærin


Framkvæmdaáætlun

Nánari útlistun á því hvaða verk þarf að vinna til þess að starfsemin geti farið af stað og vara/þjónusta fari á markað? Setja upp raunhæft mat á því hversu langan tíma það tekur að inna af hendi einstök verk.

Ýmis verkfæri við gerð viðskipta- og rekstraráætlana

Deila