
Sóknaráætlun
Markmið sóknaráætlunar Suðurnesja er að ráðstafa þeim fjármunum sem ríkið hefur varið í atvinnu-, byggða- og menningarmál á Suðurnesjum í samræmi við stefnu sem landshlutinn mótar sjálfur á þessum sviðum.
Sóknaráætlun á að stuðla að jákvæðari samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans sem og landsins alls. Jafnframt er leitast við að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna.
Landshlutasamtökin skuldbinda sig til að vinna sóknaráætlun þar sem staða landshlutans er greind og markmið sett bæði til lengri og skemmri tíma. Landshlutasamtökin taka jafnframt á sig þær skyldur að setja upp uppbyggingarsjóð sem styður við menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni í samræmi við markmið þau sem landshlutinn hefur sett sér í sóknaráætluninni. Gerð er krafa um að áhersluverkefni verða skilgreind og að þau endurspegli markmið sóknaráætlunarinnar.
Áætlunin er til 5 ára en hægt er að uppfæra hana innan tímabilsins með sömu skilyrðum og gilda um upphaflega mótun hennar. Samkvæmt áður nefndum samningi skal sóknaráætlun innihalda að lágmarki stefnu landshlutans í menningarmálum, nýsköpun- og atvinnuþróun, uppbyggingu mannauðs og lýðfræðilegri þróun svæðisins.
Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum skipaði samráðsvettvang þar sem tryggð er sem breiðust aðkoma sveitarstjórna, stofnana, atvinnulífs, menningarlífs, fræðasamfélags og annarra haghafa í landshlutanum. Samráðsvettvangurinn skal koma saman að minnsta kosti árlega og ræða framgang sóknaráætlunar.